Mér fundist áhugavert að fylgjast með þróun tækni á hverjum tíma enda í grunninn með BS próf í iðnaðartæknifræði. Gervigreindin, sem reyndar er ekkert gott heiti á AI, er þar ekki undanskilin en það á reyndar einnig við um þróun rafbíla og margt annað.
Til lengri tíma litið þá er líklegra en ekki að ný tækni hafi framfarir í för með sér. Til skamms tíma litið þá koma upp margvíslegar áskoranir sem tengjast þá gjarnan tækninni eða fólkinu nema hvortveggja sé. Innleiðing á AI í markaðsstarfi er áhugaverð. AMA (American Marketing Association), elstu markaðsfræðisamtök veraldar, fylgjast vel með þróun mála og nýlega birtist þessa færsla á vef þeirra:
“AI tools can generate content in seconds. But they can’t make your audience feel something, eliminate pain points, or build the trust that turns readers into customers. Brands that win aren’t the ones using AI as a replacement. They are using it as a tool while still leveraging the human touch that actually converts.”
Þetta er bæði áhugavert en ekki síður mikilvægt. Það er því miður svo að margir sem eru að fást við þetta telja að AI geti leyst hina mannlegu hlið af hólmi. Það er alls ekki svo en dæmin eftir sem áður allt of mörg. Hér eru nokkur:
Narsarsuaq skemmtilegri á bílaleigubíl: Hér sendir Icelandair farþega á leið til Narsarsuag auglýsingu þar sem sagt er “Narsarsuaq er skemmtilegri á bílaleigubíl” og boðið upp á tengil þar sem hægt er að finna rétta bílinn fyrir ógleymanlegt ferðalag. Þeir sem til þekkja vita að í Narsarsuaq er engin bílaleiga og samanlögð lengd vegakerfisins um 3 km. Sjá nánar hér: https://markor.is/narsarsuaq-skemmtilegri-a-bilaleigubil/
Stöðug framsækin rúmfræði: Hér er um að ræða reiðhjólaverslunina Örninn kynnir eiginleika tiltekinnar tegundar reiðhjóls á heimasíðu sinni. Textinn er nokkuð augljóslega gervigreindarþýðing þar sem fram koma hugtök um eiginleika hjólsins sem eru illskiljanleg. Sjá nánar hér: https://markor.is/stodug-framsaekin-rumfraedi/
Europe: Iceland, Greenland & Canada: Hér er NCL, eitt stærsta skemmtiferðaskipafélagið í bransanum, að senda markpóst til fyrrum viðskiptavina sem ber þetta heiti. Vissulega er Ísland í Evrópu og amk pólitískt er Grænland það einnig. Kanada er hins vegar alls ekki í Evrópu. Með auglýsingunni fylgir svo mynd sem merkt er Ísafjordur, Iceland. Kunnugir staðháttum, eins og gjarnan er sagt, sjá mjög fljótt að hér er ekki mynd frá Ísafirði. Sjá nánar hér: https://markor.is/europe-iceland-greenland-canada/
Nánast daglega má finna svipuð dæmi og hér er fjallað um og því nokkuð augljóst að svigrúm er til framfara hvaða notkun AI í markaðsstarfi varðar.

