Í maí 2017 opnaði Costco verslun á Íslandi og er í þessari rannsókn horft til þeirra áhrifa er það hafði á staðfærslu (e. positioning) verslana á markaðinum. Rannsóknarspurningin er: Hver eru áhrif opnunar Costco á ímynd fyrirtækja á matvörumarkaðnum á Íslandi? Byggt er á könnunum sem framkvæmdar voru haustið 2017 og 2018 og stuðst við aðferðafræði vörukorta (e. perceptual mapping). Notað var þægindaúrtak og gagna aflað bæði á vefformi og pappír og gögn vigtuð út frá kyni og aldri þýðisins. Bornar eru saman niðurstöður frá 2017 og 2018 og lagt mat á það hvort þau áhrif sem koma fram séu til skemmri eða lengri tíma.
Niðurstöður benda til skammtímaáhrifa í ljósi þess að í könnuninni 2017 kemur fram að Costco hafði sterka, jákvæða og einstaka stöðu að mati svarenda en í könnuninni 2018 virðist það hafa gengið til baka. Langtímaáhrifin sýnast vera þau að tilkoma Costco hafði fyrst og fremst áhrif á eina verslunarkeðju, Hagkaup, á meðan áhrifin á aðrar verslanir virðast óveruleg. Niðurstöður draga fram mikilvægi markvissra markaðsaðgerða þegar nýr og öflugur aðili kemur inn á tiltekinn markað og fræðilega framlagið snýr að því að dregin eru fram tengslin á milli vitundar og ímyndar fyrirtækja á þessum markaði.
Takmarkanir snúa að því að um þægindaúrtak er að ræða sem getur haft skekkjur í för með sér. Ekki er heldur tekið tillit til þess hvort áhrifin tengjast einvörðungu markaðsaðgerðum Costco eða markaðsaðgerðum annarra verslana á sama tíma.