
Hugarþel byggir á þeirri grunn hugmynd að maðurinn (öll kyn) búi yfir líkamlegum, andlegum og félagslegum þörfum. Öllum þessum þörfum þarf að sinna og ójafnvægi í einu atriði kann að hafa áhrif á annað. Þannig gæti, svo dæmi sé tekið, einstaklingur sem ekki sinnir sínum líkamlegu þörfum einnig átt við andlega og jafnvel félagslega erfiðleika að stríða. Sama á við um þann einstakling sem á við mikinn kvíða að etja, sá hinn sami finnur gjarnan fyrir líkamlegum og félagslegum einkennum. Allt þarf því í raun að vera í jafnvægi rétt eins og gengið er út frá í hinni fornu heimspeki um yin og yang.

Þó svo að hugarþel snúi frekar að hinni andlegu hlið einstaklingsins þá verður ekki fram hjá því horft að mikið af andlegum örðugleikum (s.s. eins og kvíði, reiði, lágt sjálfsmat o.s.frv.) á rætur að rekja til líkamlegra (ofneysla, hreyfingarleysi, svefnleysi) eða félagslegra (einangrun, vinaleysi, ofbeldi) atriða sem svo aftur geta átt einhverja tengingu í andlega þáttinn. Allt hefur því áhrif á allt og mikilvægt að gæta að jafnvægi milli allra þarfa. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að hugarþel er ekki og kemur ekki í staðinn fyrir læknismeðferð, sálfræðimeðferð eða aðra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.