Hinn stafræni heimur

Það hefur legið fyrir nokkuð lengi að við búum í því sem gjarnan er kallað hinn stafræni heimur. Þessa þróun má rekja nokkuð langt aftur í tímann en þó má segja að ferðalagið hafi hafist að alvöru í tengslum við rannsóknir Tim Berners-Lee sem þróaði það sem við þekkjum sem the World Wide Web árið 1989 en fór kannski ekki almenninlega á flug fyrr en í kringum 1994. Vissulega hafði eitt og annað gerst fyrr og mjög margt síðar.

Þarfir viðskiptavina að leiðarljósi
Nánast allt í okkar daglega lífi tengist með einum eða öðrum hætti stafrænum lausnum og margar góðar slíkar lausnir hafa litið dagsins ljós sem gera okkur lífið auðveldara. Aðrar síðri! Á sínum tíma lærði ég forritun og eiginlega bara tilviljun að markaðsmál urðu starfsvettvangurinn í stað tæknilegra viðfangsefni. Líklega hefur áhugi á fólki, og hegðun þess, ráðið för. Tækniáhuginn þó alltaf til staðar og í forritunarnáminu kynntist ég fyrirbæri sem kallað var hlutbundin forritun. Rétt að taka fram að þetta var fyrir rúmum 30 árum en í hlutbundinni forritun og vefsíðugerð var lögð á það áhersla að þeir sem kæmu að málum hefðu góða þekkingu á þörfum þeirra sem lausninni væri ætlað að þjóna sem og getu þeirra til að nýta sér þá tækni sem um væri að ræða. Þetta þykir auðvitað mörgum liggja í augum uppi og er í raun kjarninn í faglegu markaðsstarfi. Því miður virðist þetta alls ekki vera til staðar í sumum lausnum en sem betur fer þá lærir fólk af reynslunni, slæmar lausnir hverfa af sjónarsviðinu og aðrar þróast til betri vegar. Það er gott.

Stafræn markaðsfærsla
Markaðsstarf hefur orðið fyrir miklum áhrifum af stafrænum lausnum og rétt eins og hvað aðrar stafrænar lausnir varðar þá eru sumar ágætar, jafnvel fínar, á meðan að aðrar eru beinlínis slæmar. Því miður er það svo að mjög margir setja sama sem merki milli markaðsmála og kynningarmála en það er í grundvallaratriðum byggt á vanþekkingu á tilgangi og eðli markaðsfærslu (marketing). Allt frá 1969, þegar Kotler og Levy birtu grein sína Broadening the Concept of Marketing, hafa fræðimenn á sviðinu lagt á það áherslu að markaðsfræði snýst um mjög margt annað en bara kynningarmál. Grönroos og margir fleiri lögðu sitt af mörkum til þeirrar umræðu. Deila má um árangurinn af því, sérstaklega meðal stjórnenda sem gjarnan hafa annan grunn en markaðsfræði og “ákveða” að kynningarmál sé fyrst og fremst viðfangsefni markaðsfólks. Það sem er öllu verra er að kynningarmál hafa þá verið skilgreind mjög þröngt og þá fyrst og fremst sem einhverjar aðgerðir á samfélagsmiðlum.

Eftirspurn eftir þekkingu
Þetta hefur gert það að verkum að myndast hefur eftirspurn eftir fólki sem hefur skilning og færni í því sem kallað er stafræn markaðsfærsla. Því hafa háskólar, þmt. sú stofnun sem ég tilheyri, lagt á það áherslu að kynna fyrirbærið fyrir nemendum og veita þeim tiltekna færni í því. Nokkuð er því til af námskeiðum sem hafa ýmist for- eða viðskeytið stafrænt (digitalization). Ekkert er við það að athuga í sjálfum sér en í ljósi þess að allur fyrirtækjarekstur er stafrænn þá vekur athygli að ekki er neitt til sem ber heitið stafræn fjármál, stafræn mannauðsstjórnun eða stafræn stjórnun, þó svo að á þessum sviðum sé hinn stafræni heimur jafn mikilvægur þar og í stjórnun markaðsmála. Kannski er ástæða sú að í því sem kallað er stafræn markaðsfærsla þá er áherslan nokkuð mikið á tól og tæki. Það er út af fyrir sig ágætt en kemur ekki í stað þess að notkun þeirra tóla grundvallist á þekkingu á grundvallaratriðum fagsins. Það þarf því að vera jafnvægi á milli þess að byggja upp þekkingu og viðhorf annars vegar og svo færni og leikni hins vegar.

Annað getur í raun ekki komið í stað hins.