Ég hef verið háskólakennari frá 1994. Fyrst sem stundakennari samhliða stjórnunarstörfum í atvinnulífinu en frá 2001 hefur háskólakennsla verið mitt aðalstarf. Eðli málsins samkvæmt hef ég mörg námskeið og á öllum stigum háskólanáms. Þá er átt við diplómanám, nám samhliða starfi, nám til BS gráðu, nám til MBA eða MS gráðu og doktorsnám. Til þessa hafa tveir doktorsnemar útskrifast þar sem ég hef verið leiðbeinandi og/eða setið í doktorsnefnd.

Umsjón og kennsla 2024-2025

  • VIÐ101G Inngangur að markaðsfræði
  • VIÐ205G Markaðsfærsla þjónustu
  • VIÐ185F Markaðsáherslur og árangur
  • VIÐ280F Fólk, form og ferlar
  • VIÐ158M Þjónustugæði og þjónustumat
  • VIÐ265L BS ritgerð
  • VIÐ431L MS ritgerð
  • VIÐ561L Doktorsritgerð

Hér má sjá nánara yfirlit yfir kennslu og/eða umsjón námskeiða í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þá eru óupptalin námskeið sem ég hef kennt við Tækniháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst.

Kennslurit

  • Þórhallur Örn Guðlaugsson (2000). Lykilhugtök í markaðsfræði 1. hluti, fjölrit. Reykjavík, Háskólafjölritun og vefsíða námskeiða (62 síður)
  • Þórhallur Örn Guðlaugsson (2000). Lykilhugtök í markaðsfræði 2. hluti, fjölrit. Reykjavík, Háskólafjölritun og vefsíða námskeiða (76 síður)
  • Þórhallur Örn Guðlaugsson (Uppfært 2016). Markaðsrannsóknir, fjölrit. Reykjavík, vefsíða námskeiða (37 síður)
  • Þórhallur Örn Guðlaugsson (1998). Markaðsfærsla þjónustu, fjölrit. Reykjavík, Háskólafjölritun og vefsíða námskeiða (94 síður)
  • Þórhallur Örn Guðlaugsson (1997). Inngangur að markaðsfræði, fjölrit. Reykjavík, Háskólafjölritun og vefsíða námskeiða (154 síður)

Kennslustefna

Ég hef verið háskólakennari frá 1994. Hef kennt fjölbreyttum hópum, s.s. ungum nemendum með litla starfsreynslu, eldri nemendum með mikla starfsreynslu, nemendum í grunnnámi, nemendum í rannsóknartengdu framhaldsnámi, nemendum í MBA námi, nemendum í stuttum námsbrautum o.s.frv. Hef einnig kennt við ólíka skóla, s.s. Tækniskólann, Tækniháskólann, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Háskóla Íslands.

Þessi reynsla hefur mótað stefnu mína í kennslu. Hún er t.t.l. einföld:

  • Ég legg áherslu á fjölbreyttar kennsluaðferðir sem og matsaðferðir. Tel það heppilegra en að styðjast við einhæfar og einsleitar aðferðir.
  • Ég lít á nemendur sem bandamenn. Hagsmunir okkar fara saman.
  • Ég tel að nemendur eigi að bera ábyrgð á eigin námi. Ef ekkert er gert, gerist lítið.
  • Ég trúi því að gagnkvæm virðing sé mikilvæg í háskólakennslu og háskólanámi rétt eins og almennt í lífinu.
  • Ég trúi því að þekking sé þannig eign að hún vaxi eftir því sem henni er miðlað. Því þykir mér kennsla mikilvægur þáttur í starfi mínu sem háskólakennari.
  • Það versta er, þegar maður veit ekki, að maður veit ekki!

Allt sem ég geri í kennslu tekur mið af þessari stefnu. Stefnan er hins vegar ekki óbreytanleg. Góðar og gildar aðferðir árið 1994 eru það kannski ekki í dag. Stefnan þarf því að vera kvik og lifandi. Allir geta bætt sig. Einnig háskólakennarar.